Tún og leikvöllur við Sóltún

Tún og leikvöllur við Sóltún

Hvað viltu láta gera? Leikvöllurinn við Sóltúnið er eini leikvöllurinn á grænu svæði í Túnunum. Ásýnd þessa svæðis er í dag mjög dapurlegt, sem og aðbúnaður slæmur. Það þarf að lagfæra leiktækin (sem eru sum hver hættuleg í núverandi ástandi) sem og búa þarna til fallegan almenningsgarð, sem yrði sístækkandi hverfinu til sóma. Það mætti gróðursetja tré og runna, búa til fallegar lautir, setja blómabeð og bekki, sem og önnur útivistartæki. Það mætti hlúa að nýgræðingnum og sjálfssánum gróðri sem er að reyna að stinga þarna upp kollinum, tengja almenningsgarðinn við Sólgarða (matjurtargarða á bakvið hjúkrunarheimilið) og hanna göngustíga og lýsingu. Hvers vegna viltu láta gera það? Leikvöllurinn og túnið liggur á milli hjúkrunarheimilis og leik- og grunnskóla, og þangað sækja bæði eldri borgarar og fjölskyldufólk í auknum mæli. Að mínu mati hafa Túnin hingað til verið svolítið útundan hvað varðar uppbyggingu útivistar, grænna svæða og annarra fjölskyldusvæða, inn á milli allra háhýsanna og steypunnar. Það verður að fara að bæta úr þessu, enda er hverfið sístækkandi - hér rísa ný heimili upp á hverju ári. Það er afar mikilvægt í dag að auka möguleika á útivist í göngufæri, og upphefja þau fáu grænu svæði sem eftir eru í borginni, bæði í ljósi umhverfisástæðna og lýðheilsu, og sérstaklega með þéttingu byggðar að leiðarljósi. Það hefur margsannað sig að grænir reitir í þéttbýlum létta lund og auka lífsgæði. Það eru sárafá græn svæði eftir í Túnunum, og almenningsgarðar og leikvellir eru af skornum skammti. Vonandi verður úr þessu bætt og nýtt þau örfáu grænu svæði sem eftir eru í hverfinu. Almenningsgarður í Sóltúni yrði Túnurum til mikils sóma, og myndi eflaust auka samfélagsvitund og þétta íbúum enn meira saman.

Points

Þessi sorglegi leikvöllur - sem er einni leikvöllurinn í Túnunum - var til þess að við hættum við að flytja í Túnin úr Lækjunun

Þetta græna svæði er vannýttur fjársjóður, þarna ætti að skapa fjölbreytt leik og viðverusvæði fyrir alla sem vilja. Skapa skjólveggi hafa hjólahring fyrir þríhjól og yfirhöfuð gera þetta skemmtilegt svæði fyrir hverfið. Þetta er einstaklega vel staðsett flöt til að skapa útivistar og göngusvæði fyrir Laugarnesið. Jafnvel listaverk tengd sögu hverfisins.

Þarf að bæta þetta svæði fyrir börnin í hverfinu. Mikið af blokkum og vantar að gera fallegra grænt leiksvæði með bekkjum fyrir eldra fólkið.

Það er löngu komin tími á að það verði gert vistlegt almenningssvæði á þessum stað og ekki í fyrsta skipti sem ég greiði sambærilegum tillögum atkvæði mitt. Þörfin er greinileg. Hverfið er í örum vexti og nauðsynlegt að hafa grænt almenningssvæði í hjarta þess. Ég bý ekki í hverfinu en í nágrenni þess og myndi verða í hópi þeirra sem nýttu það.

Það er mikið af fjölskyldum hér í hverfinu og þessi leikvöllur einmitt sá eini á svæðinu. Mikið væri gaman að fá hann í betra stand með gróðri, og uppfæra leiktækin (jafnvel bæta trampolíni og sandkassa og einhverju meira við). Við notum hann, en við sjáum sjaldan mikið af fólki. Þetta er vannotað svæði sem gæti gefið börnum og fjölskyldum og hverfinu öllu mikið gott

Löngu tímabært. Ekki mikið fyrir börnin að gera í túnunum og nóg er af barnafólki i kringum. Gerum þetta hverfi fjölskylduvænna með þvi að gera endurbætur á þessu leiksvæði og þessum reit.

Löngu tímabært. Verður án efa mikill gleðigjafi fyrir ung börn og eldri börn.

Allveg frábær hugmynd. Það er virkilega leiðinlegt að horfa upp á þetta svæði og þar fyrir framan sem virðist vera í mikilli óhirðu. Þar hafa verktakar tæmt möl og annað rusl og síðan hefur verið sett upp byko grindur sem eru ekki til sóma. Sá partur lítur út eins og yfirgefið byggingarsvæði. Best væri að fá þetta tyrft á meðan engar framkvæmdir eru þarna og kant eða fallegt grindverk til að stúka það frá götu

Þetta er nauðsynlegt að gera! Svæðið er mjög slæmt eins og það er núna og er eina opna svæðið fyrir stórt hverfi vestan Kringlumýrarbrautar. Setja þarf fleiri og fjölbreyttari leiktæki s.s. trambolín, þrautabrautir, hjólabrettasvæði, klifurkastala fyrir yngri börn og fullt af bekkjum og borðum svo fullorðnir og börn geti setið saman. Gera þetta að sameiginlegu svæði fyrir alla aldurshópa. :)

Frábær hugmynd - þetta er eini leikvöllurinn í hverfinu og er í sorglegu standi. Vonandi kemst þessi hugmynd í framkvæmd í ár.

Þessi leikvöllur á það skilið að fá fallega og vandaða umgjörð. Er á stundum umlukin vatni og þannig stórhættulegur börnum og öðrum. Komi tími til að hann fái viðhlýtandi reisn og sóma.

alltof fá svæði þar sem börn geta leikið sér í nágrenninu.

Yrði mjög gott fyrir hverfið og íbúa í næsta nágrenni. Einnig mætti tyrfa þann hluta sem Sóltúni hjúkrunarheimilinu var úthlutað til stækkunar. Mæli með að setja líka berjarunna (rifs og sólber) sem íbúar geta nýtt sér.

Þetta er nauðsynlegt fyrir barnafólk í hverfinu. Það eru engin græn leiksvæði í næsta nágrenni við túnin sem krefst nær oftast að fara keyrandi til að komast á næsta svæði

Nauðsynlegt fyrir unga sem aldna í þessu hverfi að hafa grænt skipulagt svæði til útivistar.

Þetta er algjör nauðsyn fyrir börnin að hafa stað sem þau geta farið og leikið sér á, án þess að vera skutlað. Íslensk barnréttindi.

Leikvöllur og tún er alveg kjörið að hafa þarna fyirr unga sem aldna og mynd skapa möguleika á að fólkið í þessu hverfi gæti mætt nágrönum og gert hverfið liflegra og skemmtilegra svo ekki sé tlað um að þetta fergi í hvefinu

Hverfið þarf sárlega á því að halda að þetta svæði verði endurbætt myndarlegan hátt og gert að vin og griðastað fyrir fólkið sem býr í nágrenninu, unga sem aldna. Koma svo, Reykjavikurborg!

Engin leiksvæði sem hægt er að nýta með börnunum að viti. Svæðið nánast eitt drullusvað

Löngu komin tími á að gera þarna skemmtilegt leiksvæði

Svona afdrep í kringum þétta byggð er nauðsyn fyrir bæði unga sem aldna. Algjör synd að leyfa þessu að drabbast niður. Mun frekar að hlúa að og gera hverfið enn fjölskyldu-/félagsvænna.

Góð hugmynd, það vantar grænt svæði í hverfið , það er mjög dapurlegt eins og það er núna

Löngu tímabært! Frábært innlegg. Stór hópur barna í túnunum sem hafa lítið afdrep til leiks utandyra í hverfinu eins og staðan er í dag.

Væri frábært að fá fjölskylduvænt svæði í Túnin! Sammála að hverfið hafi mætt afgangi þegar kemur að uppbyggingu útivistarsvæða í borginni.

Þetta væri frábær viðbót við annars gott hverfi sem þarf að verða grænna. Sýnt hefur verið fram á að gróður getur aukið lífshamingju.

Þetta er eini leikvõlllurinn á okkar svæði. Núna er hann stórhættulegur fyrir börn.

Eina græna svæðið i túnunum. Mætti hressa upp a það með góðu skipulagi og leiktækjum fyrir alla aldurshópa.

Kæri hugmyndahöfundur, þakka þér kærlega fyrir þátttöku þína í verkefninu Hverfið mitt. Yfir 1320 mjög góðar hugmyndir bárust og öll þátttökumet voru slegin. Hugmynd þín var metin tæk* af fagteymi sérfræðinga verkefnisins. Þær 5 hugmyndir sem fengu flest like í hverju hverfi, af þeim sem eru tækar, fara sjálfkrafa á kjörseðlana. Þín hugmynd var ein af efstu fimm og er því sjálfkrafa komin á kjörseðilinn í þínu hverfi. Næsta skref í verkefninu er að velja aðrar þær hugmyndir sem eiga að fara á kjörseðilinn í hverju hverfi. Þetta skref fer fram á opnum aukafundum íbúaráða sem verður streymt á Facebook. Allir geta tekið þátt í þessum fundum. Þeir sem fylgjast með útsendingunni geta tekið þátt í uppstillingunni. Gaman væri að þú tækir þátt í því að vekja athygli á fundinum þegar hann verður í þínu hverfi sem og kosningunni þegar þar að kemur. Dagsetningar fundanna, hlekkir á Facebook eventa og nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. *Starfsfólks verkefnisins fer yfir innsendar hugmyndir og haft er samstarf við ýmsa sérfræðinga þegar metið er hvort hugmyndir uppfylla reglur verkefnisins. Nánari upplýsingar um yfirferðarferlið: https://reykjavik.is/hverfid-mitt-god-rad-fyrir-thina-hugmynd. Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson [email protected]

Kæri hugmyndahöfundur, kosningu í verkefninu Hverfið mitt lauk þann 14.október sl. niðurstöður kosninga má sjá á www.hverfidmitt.is, Alls voru 111 hugmyndir kosnar og munu þær koma til framkvæmda á árinu 2022. Þín hugmynd hlaut ekki kosningu að þessu sinni. Næsta haust hefst hugmyndasöfnun að nýju og gefst þá Reykvíkingum aftur tækifæri til þess að setja inn hugmyndir að verkefnum sem gera hverfi borgarinnar betri og skemmtilegri. Við þökkum þér kærlega fyrir þína þátttöku og viljum hvetja þig til þess að halda áfram að vera virkur þátttakandi í málefnum hverfisins. Ýmsar leiðir eru fyrir borgarbúa til þess að hafa áhrif á þróun borgarsamfélagsins og síns nærumhverfis. Íbúaráð Reykjavíkurborgar eru lifandi samstarfsvettvangur samráðs íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda. Virk íbúaráð eru í öllum hverfum Reykjavíkur og funda þau í hverjum mánuði yfir vetrarmánuðina. Nánari upplýsingar er að finna hér: https://reykjavik.is/ibuarad. Einnig viljum við vekja athygli á því að ábendingavefurinn er alltaf opinn fyrir borgarbúa sem vilja láta vita af einhverju sem betur má fara í umhverfinu eða þarfnast lagfæringar: https://abendingar.reykjavik.is. Bestu kveðjur, Eiríkur Búi Halldórsson [email protected]

Frábært að fá þetta samþykkt þ.e. Tún og leikvöll við Sóltún. Þetta er bæði fyrir unga og aldna og allt þar á milli. Íbúm er að fjölga á þessu svæði og á eftir að fjölga mun meira. Jafnvel þótt Sóltún hjúkrunarheimili stækki þá er alveg hægt að hafa þetta svæði sem leiksvæði og þá aðstöðu fyrir eldri borgara sem geta sest þarna niður og fylgst með börnunum að leik.

Það vantar gríðarlega fjölskylduvænt svæði fyrir túnin þar sem börn og foreldrar geta leikið, kynnst nágrönum og átt góðar stundir. Það hefur margoft verið reynt að koma þessari tillögu í gegn en þar sem Túnin tilheyra einnig Laugardal þar sem mikill fjöldi fólks býr þá virðist sem þetta verkefni mæti alltaf afgangi. Með stækkandi Túnaherfi þá væri kjörið að koma þessu í gegn þetta árið.

Alveg frábær hugmynd! Þessi hugmynd hefur komið inn á hverju ári þannig það er tími til kominn! https://betrireykjavik.is/post/19954 https://betrireykjavik.is/post/17201 Tilvalið að nýta sjálfsána gróðurinn á svæðinu og styrkja hann með áburðargjöf.

Þetta er nánast eina græna svæðið sem enn er laust í þessari þéttu byggð blokka í túnunum. Gef þessari tillögu mitt atkvæði enn einu sinni og óska eftir að bætt verði við litlum körfuboltavelli en enginn sparkvöllur eða körfur eru til staðar í dag í Túnahverfinu

Megi þetta vera árið sem þessi hugmynd nær í gegn! Við verðum að passa uppá þessi örfáu grænu svæði sem eftir eru.

Það vantar tilfinnanlega grænt og vænt svæði í þetta hverfi og þarna er smáblettur sem hægt er að skipuleggja sem frístundarsvæði fyrir börn og fullorðna. Það er mikið af háum byggingum og þétt röð bíla alls staðar í hverfinu. Þörfin er því mikil fyrir gróðrurvin með leiktækjum, borðum og bekkjum, þar sem fólk getur notið útivistar nærri heimili sínu.

Back to group

This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation

Your Priorities on GitHub

Check out the Citizens Foundation website for more information