Útieldun og leiksvæði við skátaheimili

Útieldun og leiksvæði við skátaheimili

Hvað viltu láta gera? Á landskika milli Keldnalands og Foldahverfis er landspilda í eigu borgarinnar við austurhlið skátaheimilis Vogabúa. Á svæðinu er í dag trjálundur og matjurtargarðar sem áður hýstu skólagarða Reykjavíkur. Mögulega má gefa lundinum nafnið Vogalundur með skírskotun í hverfið og skátafélagið. Hugmyndin er að koma upp frístundasvæði í anda skátastarfs sem gagnast jafnt Grafarvogsbúum og skátafélaginu Vogabúum. Á svæðinu yrði sett upp útieldunaraðstaða og leiktæki/þrautabraut úr viðardrumbum og köðlum (svipað og finna má fyrir utan Grundaskóla á Akranesi). Útieldunarsvæðið getur jafnframt nýst matjurtargörðunum til að hreinsa, ganga frá og pakka grænmetinu eftir að það er tekið upp. Útieldun: Litla varðeldalaut (hlaðin eldstó og hlaðinn bekkur í hálfhring) Kolagrill og borð til að útbúa mat á Lækkað kolagrill fyrir börn og fólk í hjólastól Vinnuborð með vaski og rennandi vatni til hreinsunar á grænmeti úr matjurtargarði og eldunaráhöldum Flokkunartunnur fyrir sorp Lítið skýli til að skýla grillurum fyrir veðri og vindum Hvers vegna viltu láta gera það? Útieldunarsvæði styður mjög vel við bæði skátastarfið og matjurtargarðana sem eru staðsett við lundinn. Fjölskyldur sem sækja matjurtargarðana geta hvílt sig, nært sig og notið á meðan og eftir að unnið er í görðunum. Skátar, skólar, leikskólar, grafarvogsbúar og fleiri geta átt góðar samverustundir og snætt saman í grænu umhverfi. Skólar og leikskólar Foldahverfis og Húsahverfis eru í innan við 1km göngufjarlægð frá lundinum. Aðstaðan getur nýst vel á hverfahátíðum, sumardeginum fyrsta, 17. júní og annarra viðburða sem stuðla að góðum hverfisanda. Skátana í Vogabúum dreymir um að eignast útieldhús til að elda undir berum himni að sönnum skátasið. Mikill uppgangur er í skátastarfi í Grafarvogi. Haustið 2020 varð nafnabreyting á skátafélaginu Hamar og breyttist aftur í Vogabúar, sem er upprunalegt nafn skátafélagsins í Grafarvogi stofnað 1988. Í dag eru tugir barna sem sækja skátafundi í skátaheimilinu Logafold í hverri viku og læra þar fjölbreytta færni tengt útiveru og náttúru. Biðlistar eru í skátafélagið og mikill áhugi fyrir þátttöku. Unnið er að því að stækka út starfsemina og tryggja fleiri börnum aðgengi. Bætt aðstaða í nágreni skátaheimilisins styður vel við uppbyggingu á æskulýðsstarfi skátanna. Verkefnið rímar vel við hinar ýmsu stefnur borgarinnar, sem hér segir: Leiksvæðastefna Reykjavíkurborgar: Víðs vegar í borginni eru stór leiksvæði, sum staðsett í skrúðgörðum þar sem gott rými er til ýmiss konar samveru. Lagt er til að slík svæði verði skilgreind sem hverfisgarðar þar sem félaga- og íbúasamtök og Skóla- og frístundasvið eigi sér vísan stað. Hugað verði að aðstöðu til útikennslu og ýmiss konar starfsemi sem eðlilegt er að fari fram utan dyra. Hverfisgarðar verði vel staðsettir í hverfinu og gegni lykilhlutverki sem samkomustaður. Úr Frístundastefnu Reykjavíkurborgar: Áhersla verði lögð á að mæta þörfum barna og unglinga fyrir aðstöðu til skapandi starfs af fjölbreyttu tagi. Húsnæði og aðstaða í borginni verði betur nýtt í þágu frístundastarfs fyrir almenning Nýta styrkveitingar borgarinnar til að jafna aðgengi barna að frístundastarfi í öllum hverfum. Í þessu skyni verði horft til framboðs á þjónustu í hverfum og reynt að stuðla að auknu jafnræði. Skapa aðstæður til að koma betur til móts við unglinga í minnihlutahópum og hvetja til verkefna sem koma í veg fyrir félagslega einangrun þeirra. Fjölga styrkjum til verkefna sem hafa forvarnar- og heilsueflingargildi með sérstakri áherslu á að ná til þeirra sem þurfa sérstaka hvatningu og stuðning til þátttöku í skipulögðu frístundastarfi Úr stefnuskjalinu Græna borgin: Torg og önnur almenningsrými eiga að vera áhugaverðir áfangastaðir sem gera borgar- og hverfisbúum kleift að halda viðburði og njóta lífsins. Þau eru mikilvæg tæki til að viðhalda mannlífi og þjónustu innan hverfis. Umhverfisgæði hverfisins aukast og þörfin fyrir ferðalög út úr hverfinu minnkar Styrkja náttúru, landslag og útivistarsvæði í borginni sem hluta af bættum lífsgæðum og lýðheilsu borgarbúa. Borgarbúar njóti góðs aðgengis að fjölbreyttum útivistarsvæðum.

Points

Dásamleg viðbót fyrir fjólskyldufólk

Styð þessa hugmynd heilshugar, mjög hvetjandi fyrir skátana og verðandi skáta og bara gaman af þessu fyrir þá sem búa í nælægð við svæðið.

Hvetur til útivistar og tengir svæðið saman.

Ég styð þessa frábæru hugmynd.

Mál til komið að gera eitthv í Húsahverfi og gott fyrir fjölsk að halda áfram að gera eitthv skemmtilegt saman🤩

👍🏼

Frábær viðbót sem nýtist vel fyrir íbúa hverfissins

Frábær viðbót við matjurtargarðana og græna svæðið sem er þarna fyrir! Þetta myndi nýtast bæði skátum, íbúum hverfisins, skólabörnum, leikskólabörnum og Reykvíkingum öllum. Matseld er bæði spennandi og þroskandi viðfangsefni, en ekki síður mikilvægt, því öll þurfum við jú að nærast.

Ég styð þetta heilshugar. Þroskandi fyrir unga skáta að læra útieldun auk þess sem íbúar fá þarna lítinn skemmtigarð fyrir fjölskyldurnar í leiðinni.

Skátastarf er öflugt forvarnastarf fyrir ungmenni og styrkir þau félagslega. Betri aðstaða=öflugra skátastarf svo þetta er frekar einfalt reiknisdæmi.💯

Snilld er með þessari hugmynd.Skatastarf er uppbyggjandi fyrir ungt fólk á öllum aldri

Kæri hugmyndahöfundur, þakka þér kærlega fyrir þátttöku þína í verkefninu Hverfið mitt. Yfir 1320 mjög góðar hugmyndir bárust og öll þátttökumet voru slegin. Hugmyndin þín var metin tæk* af fagteymi sérfræðinga verkefnisins og verður ein af þeim hugmyndum sem stillt verður upp á fundi íbúaráðs Grafarvogs á mánudaginn næstkomandi þann 22. mars milli kl. 17-19 þar sem valdar verða 25 af þeim hugmyndum sem verða á kjörseðli hverfisins í kosningunni í haust. Hér er hlekkur á facebook event fundarins sem verður opinn og streymt beint: https://www.facebook.com/events/232474641944391. Í einhverjum tilfellum hafa hugmyndir verið sameinaðar þar sem þær hafa verið taldar mjög áþekkar annarri/öðrum hugmyndum og í nokkrum tilfellum höfum við gert litlar breytingar á hugmyndum til þess að þær falli betur að reglum verkefnisins.* Fundir íbúaráðanna þar sem valið verður hvaða hugmyndir fara á kjörseðla hverfanna næsta haust verða formlegir aukafundir þar sem allir geta tekið þátt. Við viljum eindregið hvetja þig til þess að taka þátt í fundinum í þínu hverfi og vekja athygli á honum og hugmynd þinni eins og þú hefur tækifæri til. Dagsetningar allra fundanna, hlekkir á Facebook eventa og nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. *Starfsfólks verkefnisins fer yfir innsendar hugmyndir og haft er samstarf við ýmsa sérfræðinga þegar metið er hvort hugmyndir uppfylla reglur verkefnisins. Nánari upplýsingar um yfirferðarferlið: https://reykjavik.is/hverfid-mitt-god-rad-fyrir-thina-hugmynd. Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson [email protected]

Kæri hugmyndahöfundur Þín hugmynd var valin á uppstillingarfundi til þess að vera á kjörseðli hverfisins í kosningunni í Hverfið mitt næsta haust. Uppstilling kjörseðila fyrir kosningarnar fór fram á fundum íbúaráða Reykjavíkurborgar frá 22. mars til 20. maí sl. og liggur nú niðurstaða fyrir í öllum hverfum. Nánari upplýsingar hér: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. Í fyrsta skipti var öllum boðin þátttaka í þessum lið ferilsins, þ.e. að velja hugmyndir á kjörseðilinn að yfirferðar- og samráðsferli loknu. Þátttakan í uppstillingunni fór fram úr björtustu vonum og niðurstaðan er að margar frábærar hugmyndir verða á kjörseðlum allra hverfa Reykjavíkur í kosningunni í haust. Á www.hverfidmitt.is má sjá þær hugmyndir sem verða til kosninga í verkefninu Hverfið mitt þann 30. september - 14. október næstkomandi. Til þess að auka líkurnar á því að þín hugmynd verði kosin til framkvæmda sumarið 2022 getur þú kynnt hugmyndina fyrir nágrönnum þínum og hvatt þau til þess að taka þátt í kosningunni í haust. Við sendum þér póst og minnum þig á þegar að því kemur. F.h. Hverfið mitt Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson [email protected]

Kæri hugmyndahöfundur, kosningu í verkefninu Hverfið mitt lauk þann 14.október sl. niðurstöður kosninga má sjá á www.hverfidmitt.is, Alls voru 111 hugmyndir kosnar og munu þær koma til framkvæmda á árinu 2022. Þín hugmynd hlaut ekki kosningu að þessu sinni. Næsta haust hefst hugmyndasöfnun að nýju og gefst þá Reykvíkingum aftur tækifæri til þess að setja inn hugmyndir að verkefnum sem gera hverfi borgarinnar betri og skemmtilegri. Við þökkum þér kærlega fyrir þína þátttöku og viljum hvetja þig til þess að halda áfram að vera virkur þátttakandi í málefnum hverfisins. Ýmsar leiðir eru fyrir borgarbúa til þess að hafa áhrif á þróun borgarsamfélagsins og síns nærumhverfis. Íbúaráð Reykjavíkurborgar eru lifandi samstarfsvettvangur samráðs íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda. Virk íbúaráð eru í öllum hverfum Reykjavíkur og funda þau í hverjum mánuði yfir vetrarmánuðina. Nánari upplýsingar er að finna hér: https://reykjavik.is/ibuarad. Einnig viljum við vekja athygli á því að ábendingavefurinn er alltaf opinn fyrir borgarbúa sem vilja láta vita af einhverju sem betur má fara í umhverfinu eða þarfnast lagfæringar: https://abendingar.reykjavik.is. Bestu kveðjur, Eiríkur Búi Halldórsson [email protected]

Back to group

This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation

Your Priorities on GitHub

Check out the Citizens Foundation website for more information